Matthías gaf sig fram á Ásólfsstöðum

Strokufanginn Matthías Máni Erlingsson gaf sig fram í nótt en hann bankaði uppá á Ásólfsstöðum í Þjórsárdal og bað húsráðendur að hafa samband við lögreglu. Hann hafði gengið laus í viku.

Matthías Máni var vel búinn; klæddur útvistarfötum, með mat, vopnaður riffli með hljóðdeyfi, með fjóra pakka af skotum, þrjá hnífa og exi.

Sigurður Páll Ásólfsson, bóndi á Ásólfsstöðum, hafði samband við lögreglu kl. 5:09 í nótt og tilkynnti að Matthías Máni væri hjá honum. Á vef RÚV kemur fram að Sigurður hafi rætt við Matthías og eftir að hafa fullvissað fólk um að hann væri ekki hættulegur var honum boðið inn í hangikjöt og súpu. Vopnin urðu eftir fyrir utan.

Matthías Máni vildi ekki tjá sig um hvar hann hefði haldið sig eða hvar hann hefði fengið vopnin en verður yfirheyrður eftir hádegi í dag, að sögn Arnars Rúnars Marteinssonar, aðalvarðstjóra lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Mörg sumarhús eru í nágrenni Ásólfsstaða.

Lögreglan á Selfossi sótti Matthías og var hann kominn aftur á Litla Hraun klukkan hálf sjö.

Fyrri greinBein útsending frá Selfosskirkju
Næsta greinFærðu tveimur fjölskyldum góða gjöf