Matreiðslubók eftir fanga stelur senunni

Margrét með bókina í matvöruversluninni Rimlakjörum á Litla-Hrauni - þar sem hugmyndinni að bókinni kviknaði. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Nýverið kom út matreiðslubókin Vatn og brauð – fangaréttir. Bókin inniheldur 50 uppskriftir frá 35 föngum sem vistaðir eru í fangelsum landsins.

Fangavörðurinn Margrét Birgitta Davíðsdóttir er hugmyndasmiðurinn og ritstjóri bókarinnar. Bókinni er best lýst sem alþjóðlegri matreiðslubók sem endurspeglar fangahópinn með kómísku ívafi en í bókinni má finna rétti á borði við Vandræðalaxinn, Jailehouse Rock-kjúkling og Gratíneraðan togara án aflaheimilda.

„Hugmyndin kviknaði árið 2020 en þá sá ég um rekstur matvöruverslunarinnar á Litla-Hrauni. Ég hafði tekið eftir því að fangar voru oft að versla skemmtileg hráefni og oft á tíðum framandi en fangelsin eru fjölmenningarsamfélög og það endurspeglast einnig í eldhúsum fangelsanna,“ segir Margrét í samtali við sunnlenska.is.

„Þetta vakti forvitni mína og ég fór að spyrja þá hvað þeir væru að elda og þeir deildu gjarnan með mér uppskriftum og aðferðum þar að lútandi. Mér fannst margir virkilega góðir á sviði matargerðar og baksturs og ég sá að þetta væri mjög jákvætt inn í fangelsisumhverfinu – að fangar hefðu sjálfir forræði á sinni matargerð. Ég sá einnig að margir fangar nota matargerð og það sem tengist henni sem afþreyingu í afplánun.“

Vatn og brauð – fangaréttir inniheldur 50 uppskriftir frá 35 föngum er vistast í fangelsum landsins. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Dýrmætt að fá að elda mat samkvæmt sinni menningu
Margrét segir að þegar fangar hafi forræði yfir sinni matargerð getur það dregið úr neikvæðum áhrifum fangelsisvistar.

„Fangelsisvist er í eðli sínu þannig að þú stjórnar litlu sjálfur og í lokuðu fangelsunum getur þú til að mynda ekki gengið út um dyr án þess að fá leyfi eða þér sé fylgt.“

„Matargerð er því eitt af því fáa sem fangar fá að mestu leyti að stjórna inni í fangelsum. Að geta eldað sé þann mat sem maður er vanur, samkvæmt sinni menningu og hefðum, er því dýrmætt fyrir þann sem afplánar. Ekki síst þar sem sumir hverjir eru í fangelsi í nokkur ár.“

„Fangar eru gjarnan að nostra meira við matinn og nýta tímann í að betrumbæta þessa hæfni, elda margir saman og eru því um leið að næra félagslegu hliðina með því að vera með sameiginlegt borðhald.“

Mikilvægt að gleyma ekki húmornum
Sem fyrr segir kviknaði hugmyndinni að matreiðslubókinni árið 2020 í heimsfaraldrinum. „Ég viðraði þá hugmyndina við nokkra fanga og þeim fannst hugmyndin mjög spennandi. Síðan fór ég til stjórnenda og viðraði hugmyndina þar og þeim leist mjög vel á hana. Ég fór af stað í hugmyndavinnu með föngunum þar sem ég sá bersýnilega hversu spennandi þeim fannst þetta verkefni.“

„Í þessari hugmyndavinnu kviknuðu hugmyndir að heitum á réttunum í bókinni og ansi mörg þeirra eru með kómísku ívafi en það er mikilvægt sama hvað gengur á í lífinu að gleyma ekki húmornum.“

„Eins og svo margt annað þá þurfti hugmyndin að fara á ís í heimsfaraldrinum þar sem erfitt var að fara af stað með framkvæmdina á milli fangelsa. Ég vissi að þetta væri samt eitthvað sem þyrfti að framkvæma.“

Dæmi um uppskriftir úr bókinni. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Boltinn fór að rúlla með tilkomu Jóa Fel
Vending varð á vormánuðum 2025 þegar bakarinn og listamaðurinn, Jóhannes Felixson, betur þekktur sem Jói Fel, tók til starfa sem sumarafleysingakokkur á Litla-Hrauni.

„Jói kom í mötuneytið á Litla-Hrauni og ásamt því að fara inn á deildir til að kenna föngum að elda og baka. Þetta fannst mér rétti tímapunkturinn til að viðra þessa hugmynd aftur, þar sem Jói hefur víðtæka reynslu af gerð matreiðslubóka. Honum fannst hugmyndin góð og var tilbúinn í þetta verkefni og fóru þá hjólin að snúast. Hann spjallaði við þá fanga sem hann taldi að væru líklegir til að vilja vera með og fór svo inn í fangelsin og var föngunum innan handar við gerð réttanna og að skrifa niður uppskriftir. Úr varð að 35 fangar eiga 50 uppskriftir í þessari bók.“

Bókin kláruð á mettíma
Þó að hugmyndin að bókinni hafi kviknað árið 2020 þá tók það ekki nema tvo mánuði að klára bókina þegar vinnsla loksins hófst. „Mér skilst að það sé mettími,“ segir Margét.

„Jói tók myndir af öllum réttunum á símann sinn. Allir réttirnir eru myndaðir inni á deildum hjá föngunum, á þeim diskum sem að þeir borða af. Við urðum að hafa framkvæmdina á myndatökunni einfalda og lágmarka kostnað og fórum því þessa leið. Það var svo ljósmyndari sem að sá um að vinna myndirnar fyrir okkur og tók einnig myndina sem að prýðir kápu bókarinnar.“

Með kaupum á bókinni styður fólk og styrkir endurhæfingu fanga í afplánun en allur ágóði af bókinni rennur beint inn í Fangaverk. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Viðtökurnar fram úr björtustu vonum
„Ég myndi segja að þetta sé matreiðslubók fyrir alla. Þetta er líka bók fyrir þá sem að vilja skyggnast inn í fangelsisumhverfið sem er almenningi eðli málsins samkvæmt lokað og kannski svolítið framandi. Þá eru réttirnir margir hverjir einfaldir og hráefniskostnaður ekki mikill.“

„Þetta er einnig bók fyrir þá sem vilja styðja við og styrkja endurhæfingu fanga í afplánun en allur ágóði af bókinni rennur beint inn í Fangaverk sem heldur utan um allar þær vörur sem fangar framleiða í fangelsum landsins. Ég hvet fólk til að fara inn á www.fangaverk.is og skoða þær vörur sem að fangar eru að búa til og um leið styrkja þetta mikilvæga endurhæfingarstarf sem á sér stað inn í fangelsunum en vörurnar eru fallegar og eru íslensk framleiðsla.“

Hluti af endurhæfingu fanga aftur út í samfélagið er að virkja þá til daglegra athafna líkt og að elda sér mat. Margrét segir að þessi bók hafi verið gerð til að sýna fram á hvaða hæfni margir fangar hafa og undirtónn hennar sé endurhæfing fanga í afplánun.

Bókin hefur fengið mikla athygli síðan hún kom út 5. desember síðastliðinn og segja má að hún hafi stolið senunni í jólabókaflóðinu. „Viðtökurnar hafa farið fram úr björtustu vonum og í raun komið manni svolítið á óvart,“ segir Margrét að lokum.

Hægt er að nálgast Vatn og brauð – fangaréttir í HN Gallery í Reykjavík, í Bókakaffinu á Selfossi og á www.fangaverk.is.

Fyrri greinJólagjöfin í ár var styrkur til Sjóðsins góða
Næsta greinSautján fá úthlutað dvöl í Varmahlíð