Matarsmiðja tekur til starfa

Skrifað hefur veirð undir samning sveitarfélaga í uppsveitum Árnessýslu og Matís um starfrækslu matarsmiðju á Flúðum.

Um er að ræða verkefni sem hefur verið í þróun í nokkra mánuði og snýst um vöruþróun og fullvinnslu á grænmeti og öðrum landbúnaðarafurðum, kjöti, sultum og fleira.

Þá verður lögð áhersla á eflingu fag- og háskólamenntunar á svæðinu með kennslu og rannsóknum í samstarfi við Atvinnuþróunarfélag Suðurlands og Háskólafélag Suðurlands.

Komið verður á fót þróunarsetri sem aðilar í smáframleiðslu og frumkvöðlar geta nýtt til að fullvinna afurðir sínar til markaðssetningar.

Búið er að tryggja rekstur félagsins út árið 2013 meðal annars með beinum styrk frá fjórum sveitarfélögum á svæðinu upp á rúmar sex milljónir króna sem skiptist á milli þeirra í ákveðnum hlutföllum.

Félagið hefur leigt aðstöðu af Úlfari Harðarsyni undir starfsemi sína og verður hún til húsa á Iðjuslóð 1A á Flúðum. Að sögn Jóns Guðmundar Valgeirssonar sveitarstjóra Hrunamannahrepps er um spennandi verkefni að ræða og áhugi fyrir verkefninu mikill. Hann á von á að aðsókn verði talsverð í aðstöðuna.

Að hans sögn ætti starfsemi að geta hafist í húsinu innan fárra vikna, verið sé að afla tilskilinna leyfa og koma upp ýmsum tækjabúnaði.