Matarfrumkvöðlar leysa áskoranir á Suðurlandi

Ljósmynd/Arnar Sigurðsson

Lausnamótið Hacking Hekla fór fram um síðustu helgi í samstarfi við Samtök sunnlenskra sveitafélaga og Nordic Food in Tourism. Unnið var með sjálfbærni í matartengdri nýsköpun og skráðu níu teymi skráðu sig til leiks.

Sigurvegari Hacking Hekla/Suðurland var Ómangó sem mun rækta suðræna ávexti á Íslandi með frumuræktun.

Verkefnin voru þróuð áfram í gegnum samsköpunarlausnina Hugmyndaþorp en teymin höfðu aðgang að reynslumiklum leiðbeinendum á meðan á viðburðinum stóð, ásamt fyrirlestrum sem veittu þeim innblástur í þróun verkefnanna.

„Við erum virkilega ánægð með hvernig til tókst um helgina og hlökkum til að sjá sem flest af þessum verkefnum verða að veruleika og viljum leggja okkar að mörkum með því að veita þessa ráðgjöf,” segir Ingunn Jónsdóttir, ráðgjafi hjá SASS.

Sigurvegarar Hacking Hekla eru:

1. sæti Ómangó – Verkefnið mun gera íslendingum kleift að rækta suðræna ávexti með frumuræktun og mun nota til þess hátækni ræktunartanka. Örugg, sjálfbær og heilbrigð leið til að auka öryggi og fjölbreytni matvæla á Íslandi.

2. sæti Bringing Back the Milkman – Mjólkurbíllinn var mikilvægur samfélagslegur hlekkur hér áður fyrr og flutti mjólk og fréttir á milli bæja. Við viljum endurvekja mjólkurbílinn og keyra um Suðurland og flytja vörur framleiðanda og frumkvöðla til neytenda.

3. sæti Leifur Arnar – Verkefnið ætlar sér að minnka matarsóun á hlekkjum virðiskeðjunnar þar sem fyrirtæki liggja. Vandamálið verður leyst með smáforriti og miðlægu uppvinnslu eldhúsi.

Mögulegt er að skoða verkefnin sem tóku þátt í lausnamótinu inni á vefsíðunni hugmyndaþorp.hackinghekla.is.

Fyrri greinHerdís ráðin framkvæmdastjóri Skálholts
Næsta greinÞollóween í þriðja sinn