Marsvín rak á land við Gamla-Hraun

Sjórekið marsvín fannst um helgina í fjörunni fyrir neðan Gamla-Hraun, austan við Eyrarbakka. Marsvínið er um fjögurra metra langt og hátt í tvö tonn að þyngd.

Marsvín, eða grindhvalur, er mjög algengur hér við land á sumrin en heldur til á úthöfum yfir vetrartímann en fylgir svo smokkfiskum upp að landgrunninu á sumrin.

Gísli A. Víkingsson, sérfræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun, skoðaði myndirnar sem fylgja þessari frétt og staðfesti að um grindhval væri að ræða.

„Það er ekki óalgengt að grindhvali reki hér á land, en þó eru ekki nema 1-2 tilvik á ári sem við fréttum af. Stundum ganga þeir þó á land í stórum vöðum sem geta skipt hundruðum eins og kunnugt er, og Færeyingar kunna að nýta sér það,“ segir Gísli.

Ekki er ljóst á þessari stundu hver afdrif marsvínsins við Gamla-Hraun verða, en Umhverfisstofnun tekur ákvörðun um hvernig staðið er að förgun hvalhræja.


Hvalurinn er um það bil fjögurra metra langur og vegur líklega hátt í tvo tonn. sunnlenska.is/Ómar Vignir Helgason


sunnlenska.is/Ómar Vignir Helgason