„Markmiðið að auka hamingju Sunnlendinga um 5% fyrir árið 2025“

Ingunn Jónsdóttir. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Nú á dögunum var sett af stað verkefni á vegum Sóknaráætlunar Suðurlands sem ber heitið Hamingjulestin. Megin markmið Hamingjulestarinnar eru að auka hamingju Sunnlendinga.

„Hamingjulestin er gátt fyrir fræðslu og verkefni sem stuðla að bættu geðheilbrigði og aukinni vitund um málaflokkinn. Einnig viljum við stuðla að aukinni virkni og hreyfingu allra Sunnlendinga sem er liður í aukinni hamingju, vellíðan og líkamlegu hreysti,“ segir Ingunn Jónsdóttir, einn af lestastjórum Hamingjulestarinnar, í samtali við sunnlenska.is.

Hamingjuráðherra í hverju sveitarfélagi
„Nokkur sunnlensk sveitarfélög hafa hafist handa við verkefnið Heilsueflandi sveitarfélag og vinnur Hamingjulestin vel með því verkefni. Önnur sveitarfélög eru ekki síður að huga að þessum málaflokki og ættu þau að geta nýtt Hamingjulestina í þeirri viðleitni,“ segir Ingunn.

„Við erum öll ólík og því er rík áhersla á að ná til sem flestra með ólíkum áherslum og verkefnum, allt eftir því hvað hentar hverjum hóp.“

„Stefnt er á að halda fjölbreytt námskeið, fyrirlestra og fræðslu, ýmist í gegnum Hamingjulestina á netinu sem og víða um landshlutann, allt eftir því hvað við á hverju sinni. Öll sveitarfélögin eiga sinn hamingjuráðherra sem er tengiliður okkar við verkefnið. Þannig sjáum við fyrir okkur gott samstarf við öll sveitarfélögin á Suðurlandi,“ segir Ingunn.

Andleg heilsa mikilvæg
„Vorið 2019 héldu Samtök sunnlenskra sveitarfélaga sex íbúafundi í tengslum við gerð nýrrar sóknaráætlunar fyrir Suðurland. Þar kom skýrt fram að heilsan er ofarlega í huga íbúa og þá sérstaklega geðheilbrigði og andleg heilsa. Í nýrri sóknaráætlun Suðurlands fyrir árin 2020-2024 var því niðurstaðan sú að eitt settra markmiða hennar yrði að auka hamingju Sunnlendinga um 5% fyrir árið 2025 og í framhaldinu fór af stað vinna við að útfæra hvernig væri hægt að ná þessu markmiði.“

Ingunn segir að verkefnið sé búið að vera í undirbúningi síðan í janúar en mikill kraftur var settur í að koma því í loftið í kjölfar COVID-19 enda nauðsynlegt að hlúa sérstaklega að geðheilbrigðismálum á þeim fordæmalausu tímum sem nú eru.

„Inni á síðunni okkar www.hamingjulestin.is getur fólk fundið ýmsa fræðslu, fyrirlestra og fréttir um hvernig við getum unnið með okkur á uppbyggilegan og jákvæðan hátt. Við erum líka á Facebook og hvetjum við fólk til að fylgja okkur þar. Eins getur fólk sent okkur fyrirspurnir, hugmyndir og/eða hvað annað sem það telur eiga erindi við almenning í þessu samhengi,“ segir Ingunn að lokum.

Fyrri greinSlökkvilið kallað út vegna ruslabrennu
Næsta greinEva Björk í leyfi