Markarfljót fari í miðju farvegsins

„Niðurstaða fundarins var sú að lögð verði áhersla á að nú þegar verði hafin vinna við heildarskipulag varnarmannvirkja á Markarfljótsaurum.“

Þetta segir Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri í Rangárþingi eystra. Hann boðaði til fundar í gær vegna deilunnar um farveg Markarfljóts við Fljótshlíð og Merkurbæi undir Eyjafjöllum.

„Síðan sameinast allir aðilar um að finna fjármagn til að hægt verði að byggja og styrkja varnarkerfi Markarfljóts til framtíðar, sem þjóni hagsmunum bæði landeigenda og allra íbúa á svæðinu,“ segir Ísólfur.

Í Morgunblaðinu í dag segir Ísólfur málið að miklu leyti velta á peningum en reynt verði að vinna það eins hratt og framast er kostur. Sá hængur var reyndar á að fulltrúa Vegagerðarinnar vantaði á fundinn.