Markaður í Turninum á laugardag

Laugardaginn 16. nóvember næstkomandi munu íbúarnir í Smyrlaheiði 1-44 í Hveragerði efna til markaðar í Turninum, sem staðsettur er í miðju hverfinu. Þar verður til sölu handverk, listmunir og ýmislegt fleira áhugavert.

Markaðurinn verður opinn frá kl. 12.00 – 17.00. Allir eru hjartanlega velkomnir og aðgengi er gott fyrir alla. Ekki er tekið við greiðslukortum.

Í tilkynningu frá íbúum segir að í Smyrlaheiðinni búi einstaklega samhentur hópur fólks sem kann að njóta lífsins og hafa fallegt í kringum sig. Á Blómstrandi dögum í sumar vann Smyrlaheiðin í keppninni um best skreytta hverfið. Vinningurinn var ekki af verri endanum, grillkjöt frá SS. Að markaðnum loknum ætla íbúarnir að borða saman kvöldverð og gleðjast.

Fyrri greinLeitað að vitnum að ákeyrslu
Næsta greinDagný Brynjars aftur heim í Selfoss