„Markaðurinn fyrir Takumi er gríðarlega stór“

Takumi er glænýtt Instagram app sem á rætur sínar að rekja á Selfoss, en einn af stofnendum þess er Selfyssingurinn Guðmundur Eggertsson.

„Svo ég útskýri hugmyndina í fljótu máli, þá er Takumi markaðstorg þar sem auglýsendur og vörumerki vinna saman. Við höfum búið til app fyrir notendur en veftól fyrir vörumerkin, þannig að appið er í rauninni bara helmingurinn af vörunni,“ segir Guðmundur en auk þess að vera einn af stofnendum Takumi er hann fjármálastjóri fyrirtækisins.

Auk Guðmundar standa þeir Jökull Sólberg Auðunsson, Mats Stigzelius og Dom Perks að Takumi appinu. Guðmundur lærði fjármál í London og hef unnið með nýsköpunarfyrirtækjum síðustu fimm árin í London og Kaupmannahöfn.

Hjálpar fólki að komast í samband við vörumerki
„Stóra hugmyndin er sú að það er gríðarlega mikil sköpunargáfa á Instagram, og hver og einn aðili sem hefur komið sér upp fylgjendum er í rauninni að reka sinn eigin miðil þar sem hann framleiðir reglulega efni og dreifir til sinna fylgjenda. Við viljum hjálpa þessu fólki að komast í samband við vörumerki og fá tekjur fyrir sína vinnu,“ segir Guðmundur en appið fór í loftið í síðustu viku.

„Áður fyrr voru það aðeins stjörnur sem höfðu tækifæri til að vinna með vörumerkjum, en Takumi snýst um að leyfa venjulegu fólki sem hefur komið sér upp fylgjendum í sínu samfélagi að nota sína sköpunargáfu til að gera slíkt hið sama.“

Aðspurður hvaðan Takumi nafnið sé komið segir Guðmundur að það sé japanskt orð. „Takumi er notað yfir þá sem búa yfir mikilli kunnáttu á sínu sviði. Við leituðumst sérstaklega eftir nafni sem hafði enga merkingu fyrir flesta, og því höfum við tækifæri á að fylla inn í merkingu orðsins með tíma,“ segir Guðmundur.


Guðmundur Eggertsson.

Erfitt fyrir vörumerki í dag að ákveða einhverja ímynd
Guðmundur segir að með tilkomu samfélagsmiðla geti vörumerki í minna mæli ákveðið einhverja ímynd og ýtt henni út til almennings. „Vörumerki verða hluti af sögu sem fólk deilir með hvort öðru. Þetta er basic hugmyndin; leyfa vörumerkjum að beisla þessa sköpunargáfu og einstaklingum að fá tekjustreymi af þeirri miklu vinnu sem þeir setja í að útbúa efni fyrir sína fylgjendur.“

Að sögn Guðmundar er Instagram með yfir 400 milljón notendur og vex enn hratt. „Sirka 10% af þessum notendum eru með meira en 1.000 fylgjendur, svo að markaðurinn fyrir Takumi er gríðarlega stór.“

Geta millifært beint inn á bankareikning hjá sér
„Instagram notendur með 1.000 fylgjendur eða fleiri geta sótt appið og séð þar lista yfir vörumerki sem vilja vinna með þeim. Vörumerkin bjóða fasta upphæð fyrir mynd sem Instagram notandinn tekur og póstar til sinna fylgjenda. Notandinn safnar svo upp tekjum í appinu og getur millifært beint inná bankareikning hjá sér,“ segir Guðmundur.

„Vörumerkin fá í staðinn streymi af myndum sem þeir geta notað á sínum samfélagsmiðlum auk mjög markvissra, hágæða birtinga þegar einstaklingarnir pósta myndunum á sínum Instagram síðum,“ segir Guðmundur og bætir við að til að byrja með sé appið aðeins aðgengilegt þeim sem búa í Bretlandi.

Þegar Guðmundur er spurður hvernig hugmyndin að appinu hafi kviknað segir hann að þeir hafi allir komið að markaðsetningu á netinu. „Við höfðum fylgst með þeim miklu breytingum sem hafa átt sér stað með tilkomu samfélagsmiðla og að fólk eyðir auknum tíma á snjallsímum. Auglýsendur hafa þurft að aðlaga sig að notendum en átt erfitt með að finna réttu tólin til þess.“

Frábærar viðtökur

Mikil forritunarvinna er á bak við app eins og Takumi og hefur vinnan staðið yfir frá því í maí á þessu ári. „Það er einnig mikil vinna við að finna einstaklinga og vörumerki til að nota vöruna og koma snjóboltanum af stað. Við settum vöruna í loftið í síðustu viku og viðtökurnar hefðu ekki getað verið betri, appið var eitt af þeim mest sóttu í UK app store og við fengum góða umfjöllun í Daily Mail, Mirror og fleiri miðlum,“ segir Guðmundur, glaður í bragði, að lokum.

Fyrri greinÞrír fluttir með þyrlu eftir bílveltur
Næsta greinEitt Íslandsmet og níu HSK met sett á Gaflaranum