„Margrét Ýrr hefur mikið á sinni samvisku“

Guðfinna Þorvaldsdóttir, oddviti Á-listans í Rangárþingi ytra, segir sorglegt að einn aðili skuli geta haft það vald að fella meirihlutann með því að yfirgefa hann, án þess að ræða málið við listann og stuðningsmenn og bregðast þannig trausti mikils meirihluta kjósenda.

Eins og sunnlenska.is greindi frá í morgun tilkynnti Margrét Ýrr Sigurgeirsdóttir fyrrum samherjum sínum á Á-listanum í gærkvöldi að hún hyggðist stofna nýjan meirihluta í sveitarstjórn með fulltrúum D-listans.

„Þetta eru mikil vonbrigði, þar sem við á Á-listanum töldum okkur vera í góðu samstarfi um stefnu listans,“ segir Guðfinna í samtali við sunnlenska.is. „Vinnan við endurskipulagningu á fjármálum sveitarfélagsins er vissulega búin að vera mjög erfið og hefur tekið allsstaðar á. Okkur á Á-listanum þykir leiðinlegt að Margrét skuli kikna undan álaginu og geti ekki axlað ábyrgð á því að klára kjörtímabilið eins og hún var kjörin til. Nú er Margrét að færa völdin til þeirra sem var hafnað mjög skýrt í síðustu kosningum,“ segir Guðfinna en Á-listinn vann stórsigur í síðustu sveitarstjórnarkosningum og fékk 54% atkvæða.

Að sögn Guðfinnu hefur enginn málefnalegur ágreiningur verið á milli Á-listans og Margrétar á kjörtímabilinu. Hins vegar gerir Margrét athugsemdir við samskipti við Guðfinnu oddvita í yfirlýsingu sem hún sendi á fulltrúa Á-listans í gærkvöldi í tölvupósti.

„Hún segir að trúnaðarbrestur hafi komið fram gagnvart mér, sem hún útskýrði ekki nánar,“ segir Guðfinna. „Á ýmsum fundum hefur þó komið í ljós að helsta óánægja hennar virðist hafa verið vegna ákvörðunar sveitarstjórnar frá árinu 2010 um skoðun á kílómetragjaldi skólabílstjóra og ráðningu skólabílstjóra að Laugalandi 2012. Það má segja að þetta mál hafi valdið titringi innan meirihlutans, en ekki er komin niðurstaða í málið um kílómetragjaldið og greiðslur til skólabílstjóra.“

Guðfinna segir það sorglegasta við þessa ákvörðun Margrétar vera að hún ógni verulega störfum starfsmanna sveitarfélagins en mbl.is greindi frá því í morgun að búið sé að ráða Drífu Hjartardóttur sem sveitarstjóra.

„Sitjandi sveitarstjóra, Gunnsteini R. Ómarssyni, hefur ekki verið tilkynnt um þessa ákvörðun með formlegum hætti frá þeim sem standa að ráðningu nýs sveitarstjóra,“ segir Guðfinna en hún ber Gunnsteini vel söguna. „Gunnsteinn hefur verið burðarás sveitarfélagsins og unnið ötullega að endurskipulagningu fjármála þess með góðum árangri. Með brotthvarfi Gunnsteins úr starfi sem nú blasir við, sjáum við á eftir framúrskarandi starfsmanni. Ég fullyrði það að fáir hefðu getað tekið á málum eins faglega og hann hefur gert í öllum störfum fyrir sveitarfélagið. Ég vil einnig benda á að öll sveitarstjórn samþykkti einróma ráðningu Gunnsteins og því furðulegt að sama fólk ætli að ráða annan í hans stað án þess að nokkrar athugasemdir hafi komið fram um hans störf í þágu sveitarfélagsins.“

Guðfinna segir það vera athyglisvert og jafnvel kaldhæðnislegt að manneskja sem segist leggja áherslu á að hlúa að fjölskyldum skuli með þessari ákvörðun sinni segja upp fyrirvinnu sex manna fjölskyldu sem nú blasir við að flytji burt úr sveitarfélaginu. „Ljóst er að Margrét Ýrr hefur mikið á sinni samvisku,“ sagði Guðfinna að lokum.

Fyrri greinDrífa á Keldum ráðin sveitarstjóri
Næsta greinGuðmundur samdi við Sarpsborg