Margrét Ýrr hættir í vor

Margrét Ýrr Sigurgeirsdóttir, sveitarstjórnarmaður í meirihlutanum í Rangárþingi ytra og formaður hreppsráðs, hefur ákveðið að hætta í sveitarstjórn í vor.

Margrét, sem hefur átt sæti í sveitarstjórn á þessu kjörtímabili og var áður varamaður, segir fjölskylduna eiga stærstan þátt í ákvörðun sinni, og að á tímabilinu hafi gengið á ýmsu í sveitarstjórnarmálunum.

„Þetta kjörtímabil hefur verið býsna erfitt þar sem vinnuumhverfið í sveitarstjórninni hefur ekki verið heilbrigt. Það er miður að í svona litlu samfélagi eins og Rangárþingi ytra hefur pólitíkin áhrif á alla fjölskylduna. Þrátt fyrir allt þá hefur kjörtímabilið verið mjög lærdómsríkt og ýmsu góðu hefur verið áorkað svo ég hætti sátt,“ segir Margrét.

Hún segir að nú taki við að sinna fjölskyldunni betur enda telji börnin niður dagana fram að kosningum 31. maí. Síðan ætlar hún að huga að heilsunni og áhugamálunum eins og Flugbjörgunarsveitinni á Hellu og aðstoða eiginmann sinn við búskapinn í Ásahreppnum.

Kjörtímabilið stytt niður í tvö ár
Margrét Ýrr segist vilja sjá kjörtímabil sveitarstjórna stytt í tvö ár. „Já, því þá geta íbúar haft meiri áhrif á hverjir stjórna. Á fjórum árum getur t.d. komið í ljós að fólk sé óhæft til að starfa í sveitarstjórn og þá er möguleiki á breytingum. Stytting tímabilsins gæti mögulega haft þau áhrif að fleiri vildu gefa kost á sér í þetta en við þurfum fleiri konur í framboð,“ sagði Margrét.

Fyrri greinÁsetningur mannsins að vinna konunni mein
Næsta greinNý 500 fermetra leikskólabygging tekin í notkun