Margrét hættir í Flóahreppi

Margrét Sigurðardóttir verður ekki sveitarstjóri í Flóahreppi á næsta kjörtímabili. Hún hefur starfað sem sveitarstjóri frá stofnun sveitarfélagsins árið 2006.

„Ég hef orðið þess heiðurs aðnjótandi að taka þátt í tilurð sveitarfélagsins og vexti og lít svo á að nú sé góður tími til að láta gott heita. Þetta hefur verið ánægjulegur tími, sveitarfélagið hefur vaxið og dafnað og mín tilfinning er sú að vel hafi tekist til við að skapa umgjörð um gott samfélag,“ segir Margrét í pistli í nýjasta tölublaði Áveitunnar.

„Það er auðvitað þannig að það verður erfitt að sleppa tökunum en ég mun fylgjast með sveitarfélaginu og halda áfram að verða stolt eins og ungamamma þegar fréttir berast af góðum árangri einstaklinga úr Flóanum,“ segir Margrét ennfremur og bætir við að hún hafi verið afar lánsöm með samstarfsfólk á skrifstofu og stofnunum sveitarfélagsins.

„Að mínu mati er það frumskilyrði fyrir góðan árangur að samstarf sé gott. Ég vil líka þakka sveitarstjórnarfólki síðustu tveggja kjörtímabila fyrir gott samstarf, ekki síst Aðalsteini Sveinssyni sem mun láta af störfum sem oddviti til átta ára nú í vor.“