Margir vilja í Hamarshöllina

Mikil aðsókn er í Hamarshöllina í Hveragerði og vel gengur að bóka í tíma þar. Íþróttafélög víða af Suðvesturhorninu hafa verið dugleg að sækja þangað til að æfa, sérstaklega íþróttafélög úr Árnessýslu.

„Já, ég hefði gjarnan vilja eiga fleiri tíma núna,“ segir Jóhanna M. Hjartardóttir, menningar- og frístundafulltrúi Hveragerðisbæjar, sem sér um bókanir í húsið.

Hún segir að auk heimamanna úr Hveragerði komin knattspyrnufélögin úr nágrenninu mikið til æfinga í húsinu, auk fótboltaakademíunnar í Fjölbrautaskóla Suðurlands. „Svo hefur Knattspyrnusambandið haldið námskeið í húsinu og félög úr Reykjavík hafa einnig sótt hingað og óskir berast héðan og þaðan,“ segir hún.

Þessu fylgir einnig samstarf við gistiaðila í bænum að sögn Jóhönnu. Sem dæmi gistu handboltamenn úr Vestmannaeyjum á Hótel Örk í fjóra daga þegar þeir voru við æfingar í húsinu nýverið.

„Við erum ánægð með samstarfið við gistiþjónustuaðilana hér, og þetta gengur vel þrátt fyrir að við höfum ekki farið í mikla markaðssetningu,“ segir Jóhanna.

Þá hafa eldri borgarar í Hveragerði sína tíma í húsinu og yngstu krakkarnir í skólagæslu grunnskólans, a.m.k. einu sinni í viku. „Það má því segja að húsið sé vel nýtt.“

Fyrri greinStyrmir stekkur hærra og hærra
Næsta greinBúist við stormi víða – Blindhríð á Hellisheiði