Margir óku of hratt í vikunni

Tuttugu og fjórir ökumenn voru kærðir fyrir að aka of hratt í umdæmi lögreglunnar á Selfossi í liðinni viku.

Einn þeirra var mældur á 149 km/klst hraða á Suðurlandsvegi og bíður hans því svipting í einn mánuð auk 130 þúsund króna sektar og þriggja punkta í ökuferilsskrá.

Tveir óku of hratt á Austurvegi á Selfossi, annar á 77 km/klst hraða en hinn á 79 km/klst hraða. Aðrir voru mældir á Suðurlandsvegi, Eyrarbakkavegi, Þrengslavegi, Lyngdalsheiði og Mosfellsheiði þar sem leyfður hámarkshraði er 90 km/klst.

Sex voru stöðvaðir grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis og er einn þeirra talinn hafa verið undiráhrifum fíkniefna eða lyfja að auki. Sjöundi aðilinn var, auk þessa, kærður fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna.

Fyrri greinNýr skógur í Fljótshlíð
Næsta greinÖkumaður og farþegi ekki í belti