Margir með þungan bensínfót

Lögreglan á Selfossi kærði 23 ökumenn fyrir hraðakstur í síðustu viku, sjö fyrir að virða ekki stöðvunarskyldu og einn fyrir að nota ekki öryggisbelti.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á Selfossi.

Tvö slys voru tilkynnt á erlendum ferðamönnum sem leigðu sér snjósleða á Langjökli. Sl. laugardag slösuðust tvær erlendar konur, fæddar 1935 og 1941 þegar önnur þeirra missti stjórn á sleða sem hún var að leggja af stað á. Mun önnur kvennanna hafa viðbeinsbrotnað en meiðsl hinnar voru minni.

Í gær slasaðist svo erlend kona fædd 1951 á hendi og baki þegar hún féll af sleða sem hún ók. Meiðsl hennar munu vera minniháttar.

Fyrri greinÞrjár vinkonur gómaðar á Litla-Hrauni
Næsta greinÁrborg valtaði yfir Afríku