Margir litlir skjálftar í Heklu

Hekla. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Jörð tók að skjálfa í Heklu liðna nótt og hafa nokkrir skjálftar mælst í fjallinu allt fram á kvöld. Þeir eru allir um eða yfir 1 að stærð og flestir á litlu dýpi.

RÚV greinir frá því að Veðurstofan hafi látið Almannavarnir og Isavia vita af skjálftunum í morgun. Óvenjulegt er að svo margir skjálftar mælist í Heklu á svo skömmum tíma en næmni mælanets kringum fjallið hefur aukist undanfarið og nú er hægt að sjá mun minni og fleiri skjálfta en áður.

Kristín Jónsdóttir, fagstjóri jarðvár á Veðurstofunni, segir í samtali við RÚV að þarna sé einhver smá óstöðugleiki, sem sérfræðingar hafi ekki miklar áhyggjur af, eins og stendur.

Fyrri greinDagný skoraði í stórsigri Íslands
Næsta greinHlaupinu í Múlakvísl lokið