Margir heimsóttu nýja Heilsugæslu Uppsveita

Starfsfólk Heilsugæslu Uppsveita ásamt Díönu Óskarsdóttur forstjóra HSU.

Hefðbundin starfsemi á Heilsugæslu Uppsveita hófst í dag en stöðin var opnuð á Flúðum í gær. Þá var íbúum og öðrum gestum boðið að heimsækja nýju starfsstöðina, ganga um húsnæðið, tala við starfsfólk og kynna sér nýju aðstöðuna við Hrunamannaveg 3.

Fjöldi fólks nýtti sér það tækifæri en um 250 manns mættu á opnunina. Með breytingunum fylgja þrír fastráðnir læknar. Þau Hafdís Sif Svavarsdóttir, Jón Benediktsson og Rakel Lind Úlfhéðinsdóttir læknar munu öll starfa á Heilsugæslu Uppsveita.

(F.v.) Jón Benediktsson, Hafdís Sif Svavarsdóttir og Rakel Lind Úlfhéðinsdóttir.

Langur aðdragandi hefur verið að þessum flutningum og hefur starfsfólk Heilsugæslu Uppsveita borið hitann og þungan af þessum breytingum og fengu að hanna húsið eftir sínu höfði og með þjónustukosti að leiðarljósi. Samhliða opnuninn mun Apótek Suðurlands opna við hlið heilsugæslunnar. Til að byrja með verður opnunartími apóteksins frá kl. 9 til 16 alla virka daga.

Tíu ungum fulltrúum frá sveitarfélögunum fjórum sem mynda uppsveitir Árnessýslu boðin á opnunina. Þessir flottu fulltrúar stóðu sem táknmynd framtíðarneytenda Heilsugæslu Uppsveita.
Fyrri greinViljayfirlýsing um lágvöruverðsverslun á Hellu liggur fyrir
Næsta greinSelfoss sótti að Hetti í lokin