Margar slysagildrur vegna trjágróðurs

Ellefu ára dóttir Heiðar Eysteinsdóttur slapp með marblett er hún hjólaði í veg fyrir bíl á gatnamótum Lágengis og Tryggvagötu á Selfossi fyrir skömmu.

Háir trjárunnar byrgðu stúlkunni og ökumanni sýn með fyrrgreindum afleiðingum. Heiður segir slíkar slysagildrur um allan bæ og að úrbóta sé þörf. Umferðarstofa hefur sömuleiðis bent á að trjágróður byrgi ökumönnum sýn víða og úr því þurfi að bæta.

„Ég hef lengi haft áhyggjur af þessu, sérstaklega í Engjahverfinu við Tryggvagötu. Við biðskyldulínuna sjá ökumenn hvorki úti á gangstétt né veg,“ segir Heiður. Hún gagnrýnir einnig trjágróður á umferðareyjum á Austurvegi.

Siggeir Ingólfsson, yfirverkstjóri umhverfisdeildar Árborgar, segir erfitt að eiga við vandann, öðruvísi en að fella öll tré. Það sé trjágróður við flest gatnamót á Selfossi. „Það eina sem virkar, er að ökumenn fari varlega,“ segir Siggeir og telur að ef ökumenn fari rétt að eigi að vera hægt að líta til beggja hliða. „Mér finnst langsótt að kenna trjágróðri um óhöpp.“