Um hádegi í dag bárust Landhelgisgæslunni boð frá neyðarsendi með staðsetningu við Skaftafellsfjöru á Skeiðarársandi.
Björgunarsveitir voru ræstar út ásamt því að flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF var send til leitar en hún var í eftirlitsflugi í suðurhluta efnahagslögsögunnar á þessum tíma. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni.
Við skoðun á málinu kom í ljós að um var að ræða breska seglskútu sem hafði lent í hrakningum við Bretlandseyjar 18. ágúst. Þá var þremur manneskjum bjargað af skútunni og hún skilin eftir á reki.
Upp úr klukkan 13 fann áhöfn TF-SIF skútuna strandaða í Skaftafellsfjöru og lá björgunarbátur skammt frá henni. Þyrla Landhelgisgæslunnar var send á vettvang síðdegiss, þar sem stýrimaður þyrlunnar og lögreglumaður frá lögreglunni á Suðurlandi skoðuðu skútuna og slökktu á neyðarsendi hennar. Næstu skref verða metin á næstu dögum í samráði við eigendur og tryggingarfélag.


