Mannlaus rúta brann í Mýrdalnum

Lítil rúta brann til kaldra kola á bílastæðinu við Hótel Kötlu á Höfðabrekku í Mýrdal á sjötta tímanum í dag.

Rútan var mannlaus þegar eldurinn kom upp en hún var á vegum erlendra ferðamanna.

Allt tiltækt slökkvilið frá Vík var kallað á vettvang og gekk slökkvistarf vel en rútan var alelda þegar slökkviliðsmenn mættu á staðinn. Mildi þykir að vindátt var hagstæð og því voru hús ekki í hættu.

Upptök eldsins eru ókunn en verða rannsökuð af lögreglu.