Manni bjargað úr Laugarvatni

Mynd úr safni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Allar björgunarsveitir í uppsveitum Árnessýslu ásamt bátaflokki frá Björgunarfélagi Árborgar voru kallaðar út um klukkan 16 í dag þegar tilkynning barst um bát á hvolfi og mann í Laugarvatni.

Félagar í Björgunarsveitinni Ingunni á Laugarvatni voru komnir út á vatnið eftir mjög skamman tíma og náðu að finna manninn, ekki langt frá Útey. Þeir komu honum í land með hjálp íbúa á næsta bæ og fékk maðurinn aðhlynningu hjá sjúkraflutningamönnum HSU.

Að sögn Viðars Arasonar, stjórnanda í aðgerðarstjórn björgunarsveitanna, gekk útkallið vel en aðstæður á vatninu voru krefjandi, hvasst og öldugangur. Maðurinn var vel búinn og reynslumikill og virtist ekki hafa orðið meint af volkinu en bát hans hafði hvolft og hann náði ekki að snúa honum á réttan kjöl aftur.

Fyrri greinJohanna Budwig og meðferð hennar við gigt, hjartasjúkdómum, krabbameini og öðrum sjúkdómum
Næsta greinNíu aðgerðir til að setja geðheilsu í forgang