Mannfjöldi í blíðunni á Bakkanum

Mikill mannfjöldi tók þátt í skrúðgöngu á Eyrarbakka í morgun, en þar stendur nú sem hæst hin árlega Aldamótahátíð.

Lúðrasveit Selfoss og Siggeir Ingólfsson, skrúðgöngustjóri, leiddu hópinn að kjötkötlunum við Húsið þar sem boðið var uppá ekta íslenska kjötsúpu.

Í dag verður fjölmargt í boði fyrir alla fjölskylduna; kappsláttur, fornbílaakstur, sýningar, söngvar og dans auk þess sem blásið verður til brúðkaups í Pútnahúsinu á síðdegis og hvítar dúfur fljúga heiðursflug.

Síðdegis bjóða gestrisnir Eyrbekkingar heim til sín og einhverjar húsfreyjur ætla að baka flatkökur á pallinum.

Í kvöld er hlöðuball í Gónhól með hljómsveitinni Spútnik og Rauði barinn með lifandi músík.

Hátíðinni lýkur á sunnudagskvöld með fjöldasöng og flugeldasýningu við Slippinn.

Fyrri greinReiða sig á aðkeypt hey
Næsta greinSelfosskonur öruggar með toppsætið