Mannekla og miklar annir lögreglu

Einn lögregluþjónn var á Selfossi þegar fjórir menn réðust á aðra tvo með exi við N1 á Selfossi síðdegis á laugardag.

Um helgina voru mjög miklar annir hjá lögreglunni á Selfossi og komust lögreglumenn í þá stöðu að vera í verkefnum langt frá lögreglustöðinni á sama tíma og tilkynnt var um þessa
alvarlegu líkamsárás.

Fjórir lögreglumenn eru á vakt yfir daginn um helgar. Tveir voru í verkefni við Gullfoss og einn í umferðareftirliti á Hellisheiði. Sá fjórði er varðstjóri og er hann við stjórnborð á lögreglustöðinni.

Lögreglumennirnir voru kallaðir hið snarasta úr sínum verkefnum. Um 15 mínútur tekur að aka forgangsakstur frá Hellisheiði en um 30 mínútur frá Gullfossi.

Mjög fljótlega var svo kallað á liðsauka frá Reykjavík en sérsveit ríkislögreglustjóra er í viðbragðsstöðu og þjónustar suðvesturland ef um er að ræða útköll þar sem málsaðilar beita vopnum. Varðstjóri á vakt hefur samband við fjarskiptamiðstöð lögreglu og óskar eftir liðsaukanum.

Á dögum sem þessum eru tveir lögreglumenn á bakvakt, einn úr rannsóknardeild og einn úr yfirstjórn. Þeir voru báðir kallaðir út í þessu tilviki. Ef í harðbakkann slær er mögulegt að hringja út menn sem eru á frívakt. Það var ekki nauðsynlegt í þessu máli en þegar mest var unnu tólf lögreglumenn að málinu.

Þorgrímur Óli Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, sagði í samtali við sunnlenska.is að það væri umhugsunarvert að ekki hafi verið hringt í Neyðarlínuna vegna árásarinnar. Fjöldi vitna var á staðnum en enginn hringdi og þess vegna var ekki kölluð til sjúkrabifreið. Hins vegar fékk lögreglan símtal á lögreglustöðina frá þriðja aðila sem tilkynnti um málið.

Þá var strax brugðist við að sannreyna árásina en þeir sem urðu fyrir henni mættu sjálfir á lögreglustöðina nokkrum mínútum síðar.