Mannekla á erilsömum degi

Mikill erill var hjá lögreglunni á Selfossi í gær, og reyndar svo mikill að nokkrum verkefnum var ekki hægt að sinna vegnna manneklu.

Fjórir knapar lentu í vandræðum, einn datt af baki við Reykjarétt en lögregla komst ekki á staðinn vegna manneklu. Þegar lögreglumaður fór á sjúkrahúsið á Selfossi til að athuga með knapann kom í ljós að annar knapi, ellefu ára stúlka hafði dottið af baki við Faxabúðir í Biskupstungum. Það slys hafði ekki verið tilkynnt lögreglu.

Þá slasaðist hestamaður þegar hann datt af baki í Brautarholti á Skeiðum og í fjórða tilvikinu tilkynnti maður að hann hefði fangað hest í fullum reiðtygjum við Kaldárhöfða. Maðurinn hafði staðið lengi með hestinn en knapinn var hvergi sjáanlegur. Hann kom þó í leitirnar í þann mund sem lögreglan var að hefja leit og var ekki illa slasaður.

Þá fann lögreglan 4-5 grömm af amfetamíni við húsleit á Selfossi. Efnin voru falin í hátalaraboxi en fíkniefnahundurinn Buster átti ekki í vandræðum með að þefa þau uppi.

Einnig fékk lögreglan tilkynningar um innbrot í bíl og í sumarbústaði í sýslunni en þau mál þurfti að afgreiða í gegnum síma þar sem ekki var til mannskapur til að sinna þeim.

Fyrri greinSýningarstjóraspjall í Listasafninu
Næsta greinFjóla varð önnur í Svíþjóð