Mánar hlutu menningarverðlaunin

Hljómsveitin Mánar frá Selfossi fékk menningarviðurkenningu Sveitarfélagsins Árborgar 2015 í dag þegar menningarhátíðin Vor í Árborg var sett í Hótel Selfossi.

Blómaskeið Mána var á árunum 1965-1975 en þá voru þeir stórveldi í tónlistarsenunni á Íslandi og áttu sunnlenska sveitaballamarkaðinn með húð og hári. Sveitin hefur aldrei hætt störfum, hún kom saman árið 1985 en síðan ekki aftur fyrr en árið 2004 er hún hitaði upp fyrir Deep Purple í Laugardalshöll. Mánar sýndu þá og sönnuðu að þeir höfðu hreinlega engu gleymt.

Hljómsveitin Mánar fagnar 50 ára afmæli í ár og af því tilefni hafa þeir félagar hist á liðnum vikum og lagt drög að nýjum lögum svo vænta má tónleikahalds síðar á afmælisárinu. Hljómsveitina skipa þeir Ólafur Þórarinsson, Ragnar Sigurjónsson, Björn Þórarinsson, Smári Kristjánsson og Guðmundur Benediktsson.

Dagskrá Vors í Árborg hófst í morgun en henni lýkur á sunnudagskvöld. Við setningarathöfnina í dag söng kór eldri borgara í Hveragerði, Hverafuglarnir. Auk þess voru opnaðar í Hótel Selfossi, sýningar Myndlistarfélags Árnesinga og Ljósmyndaklúbbsins Bliks.

Fyrri greinGleðilegt sumar!
Næsta greinPáll Valur: Gleðilegt sumar