Málun Ölfusárbrúar frestað

Fyrirhugaðri málun Ölfusárbrúar, sem til stóð að framkvæma í sumar, hefur verið frestað þar sem tilboð sem bárust í verkið voru langt umfram kostnaðaráætlun.

Til stóð að sandblása og mála grindarbitann undir brúnni og átti verkinu að vera lokið í ágúst næstkomandi.

Tvö tilboð bárust í framkvæmd verksins; tæpar 64,8 milljónir króna frá Verkvík-Sandtak í Hafnarfirði og rúmar 92,4 milljónir króna frá Ístak hf í Mosfellsbæ. Áætlaður verktakakostnaður Vegagerðarinnar hljóðaði hins vegar upp á 37 milljónir króna þannig að tilboðin voru 175% og 250% af kostnaðaráætlun.

G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, sagði í samtali við sunnlenska.is að báðum tilboðum hafi verið hafnað og verkinu verði væntanlega frestað fram á næsta ár.