Málning út um allt

Nokkrir lítrar af hvítri málningu helltust niður á Austurveg á Selfossi síðdegis í dag og skvettist málning á nokkrar bifreiðar.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu er ekki vitað hvernig málningin fór í götuna en hún fékk tilkynningu um að tíu lítra málningarfata hefði lent í götunni.

Starfsmenn Vegagerðarinnar fóru á vettvang ásamt slökkviliðsmönnum á Selfossi og hreinsuðu upp málninguna eins og hægt var.

Ökumaður sem kom við á lögreglustöðinni taldi að um akrýlmálningu væri að ræða og því ættu bíleigendur sem óku yfir málninguna ekki að lenda í vandræðum við að þrífa bíla sína með réttum hreinsiefnum.