Málefnasamningur nýja meirihlutans í Árborg

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar og óháðra, Miðflokksins og Áfram Árborgar skrifuðu síðastliðinn föstudag undir málefnasamning um meirihlutasamstarf flokkanna í Sveitarfélaginu Árborg.

Markmið meirihlutans um rekstur sveitarfélagsins eru eftirfarandi:

Fræðslu- og menntamál

 • Boðið verði upp á leikskólapláss fyrir öll börn í Sveitarfélaginu Árborg frá 12 mánaða aldri og tryggt verði að til staðar verði nægjanlegt framboð leikskólarýmis.
 • Leik,- grunn-, og tónlistarkennurum verði tryggð viðunandi starfsaðstaða og sjálfstæði þeirra í starfi aukið og stutt verði við endurmenntunarmöguleika starfsfólk.
 • Systkinaafslættir í leikskólum verði endurskoðaðir.
 • Móðurmáls- og íslenskukennslu fyrir tvítyngd börn verði efld.
 • Unnið verði með samstilltum aðgerðum gegn einelti og félagslegri einangrun barna í samfélaginu.
 • Tölvukostur og upplýsingakerfi skólanna verði bætt með það að markmiði að styðja börn, foreldra og skóla í að takast á við stafrænan veruleika.
 • Verkmenntun og kennsla í skapandi greinum verði efld.
 • Sérfræðiþjónusta í grunnskólum Árborgar verði efld.
 • Opnunartímar og sumarlokanir leikskóla verði endurskoðaðir í samráði við starfsfólk og foreldra.

Atvinnumál

 • Ráðist verði í átak í atvinnuppbyggingu og ferðaþjónustu, þar sem stuðlað verði að nýsköpun og frumkvöðlastarfi í samstarfi við ferðaþjónustuaðila.
 • Sveitarfélagið verði markvisst kynnt sem góður valkostur fyrir fyrirtæki og opinberar stofnanir.
 • Tryggt verði að ætíð sé til staðar sé nægt framboð lóða undir fjölbreytta atvinnustarfsemi.
 • Mótuð verði atvinnustefna sveitarfélagsins til framtíðar.
 • Leitað verði leiða til að ljúka við Menningarsalinn á Selfossi í samstarfi við aðra aðila.

Velferðar- og fjölskyldumál

 • Þrýst verði á ríkisvaldið að tryggt verði að byggð verði næg hjúkrunarrými fyrir aldraða, í takt við íbúaþróun og fyrirsjáanlega þörf á svæðinu.
 • Félagsleg heimaþjónustu verður efld, með það að markmiði að aldraðir geti dvalið lengur heima.
 • Leitað verði eftir samstarfi við SÁÁ um rekstur göngudeildar í sveitarfélaginu.
 • Átak verði gert hjá sveitarfélaginu í ráðningu fólks með skerta starfsgetu og atvinnurekendur á svæðinu hvattir til þess sama.
 • Unnið verði markvisst að því að tryggja framboð á öruggu og ódýru leiguhúsnæði á vegum sveitarfélagsins eða í samstarfi við húsnæðisfélög sem rekin eru án hagnaðarmarkmiða um byggingu og rekstur íbúða fyrir tekjulægri einstaklinga og fjölskyldur. Tryggðar verði lóðir fyrir þær byggingar svo hægt verði að fara í framkvæmdir sem fyrst.
 • Hraðað verði uppbyggingu og aukið framboð á íbúðum fyrir fatlað fólk.

Íþrótta- og tómstundamál

 • Mótuð verði framtíðarstefna í samráði við íbúa og áhugamannafélög um áherslur og uppbyggingu á aðstöðu til félagsstarfs, íþróttaiðkunar og annars tómstundastarfs.
 • Gerð verði framkvæmdaáætlun um uppbyggingu íþróttamannvirkja í öllu sveitarfélaginu.
 • Tryggt verði að öll börn og unglingar hafi jafna aðgang að íþrótta- og æskulýðsstarfi, óháð efnahag.

Umhverfis- og skipulagsmál

 • Unnið verði að framtíðarlausn í fráveitumálum sveitarfélagsins.
 • Aðalskipulag Sveitarfélagsins Árborgar 2010-2030 verði endurskoðað.
 • Mótuð verði heildstæð umhverfisstefna sem tekur á umgengni, sorphirðu, samgöngum, notkun vistvænna vara og minni umbúðanotkun. Sorpflokkun verði aukin, hafin söfnun á lífrænum úrgangi og settir upp grenndarstöðvar á nokkrum stöðum í sveitarfélaginu.
 • Unnið verði að svæðisskipulagi með nágrannasveitarfélögum í þeim tilgangi að kortleggja og laða að atvinnustarfsemi.
 • Gjaldskrá Selfossveitna verði endurskoðuð með það að markmiði að gæta jafnræðis meðal allra notenda sveitarfélagsins.
 • Endurskoðað verði fyrirkomulag og aðgengi almenningssamgangna innan sveitarfélagsins.
 • Þrýst verði áfram á stjórnvöld að ráðast í byggingu nýrrar brúar yfir Ölfusá og tvöföldun þjóðvegarins á milli Hveragerðis og Selfoss.

Stjórnsýsla og fjármál

 • Auglýst verði staða bæjarstjóra.
 • Álagningarprósenta fasteignaskatts verði endurmetin og afsláttarreglur endurskoðaðar.
 • Lækkað verði hlutfall íbúa sem geta farið fram á íbúakosningu um einstök mál. Íbúalýðræði og hverfaráðin verði efld.
 • Íbúafundir verði haldnir reglubundið til að veita upplýsingar um málefni sveitarfélagsins og gefa íbúum kost á að hafa áhrif á stefnumótun og rekstur bæjarfélagsins.
 • Sett verði tímasett langtímamarkmið um lækkun skulda. Innleiddir verði bættir verkferlar við eftirfylgni bæjarfulltrúa með rekstrinum.
 • Útboð og verðkannanir verði almenna reglan við öll innkaup til sveitarfélagsins.
 • Heimasíða sveitarfélagsins verði efld verulega og rafræn afgreiðsla mála gerð möguleg.
 • Sveitarfélagið Árborg verði fyrirmyndar sveitarfélag varðandi öryggis- og neyðarmál, og vinni með ríkinu að tryggja öfluga lögreglu og heilbrigðisstofnanir á Suðurlandi. Skýra skal betur í hverju ábyrgð sveitarfélaga vegna almannavarna í héraði felst og hvernig samvinna við ríkisvaldið skuli vera háttað.

TENGDAR FRÉTTIR:
„Góðar viðræður og góður samhljómur hjá flokkunum“