Malbikað og valtað í Árborg í sumar

Malbikað á Selfossi. Mynd úr safni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Malbik og völtun ehf bauð lægst í malbiksyfirlagnir í sveitarfélaginu Árborg sem vinna á við á þessu ári. Tilboð fyrirtækisins hljóðaði upp á tæpar 30,7 milljónir króna en kostnaðaráætlun verksins var tæpar 35,2 milljónir króna.

„Það er ekki búið að fastsetja hvaða götur verða teknar í ár. Hingað til höfum við tilgreint göturnar í útboðinu en í ár ákváðum við að bjóða þetta út snemma og tilgreina engar götur, aðeins magn. Mér skilst við höfum verið allt að mánuði á undan flestum í útboð enda fengum við gott verð,“ sagði Auður Guðmundsdóttir, deildarstjóri framkvæmda og þjónustu hjá Sveitarfélaginu Árborg, í samtali við sunnlenska.is en 10.000 fermetrar verða malbikaðir í Árborg í sumar.

„Við forgangsröðum síðan yfirlögnum þegar við sjáum hvernig göturnar koma undan vetri en af nógu er að taka,“ bætti hún við.

Öll tilboðin nálægt kostnaðaráætlun
Fimm verktakar buðu í verkið og voru tilboðin öll nálægt kostnaðaráætlun verkfræðistofunnar Eflu. Önnur boð í verkið komu frá Malbikun Akureyrar 34,8 milljónir króna, Malbikunarstöðinni Höfða 36,2 milljónir, Loftorku 36,5 milljónir og Malbikunarstöðin Hlaðbær-Colas 37 milljónir króna.

Fyrri greinSveitarstjórn leggst alfarið gegn áformum um stofnun miðhálendisþjóðgarðs
Næsta greinTryggvi, Ísak og Hannes framlengja við Selfoss