Malbik og völtun bauð lægst í yfirlagnir

Austurvegur hefur verið malbikaður áður, og ekki vanþörf á. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Malbik og völtun ehf í Reykjavík bauð lægst í verkið Malbiksyfirlagnir 2017 hjá Sveitarfélaginu Árborg.

Tilboð fyrirtækisins hljóðaði upp á rúmar 17,7 milljónir króna og var 79,5% af áætluðum verktakakostnaði verkfræðistofunnar Eflu. Kostnaðaráætlunin hljóðaði upp á tæpar 22,3 milljónir króna.

Fjórir aðrir verktaka buðu í verkið. Hlaðbær-Colas bauð rúmar 19,4 milljónir króna, Malbikunarstöðin Höfði rúmar 20,8 milljónir, Loftorka tæpar 23,0 milljónir og Fagverk verktakar rúmar 28,0 milljónir.

Verkið felur í sér malbiksyfirlagnir á götum Suðurhólum, Lágheiði og Breiðumýri. Þar verður fræst og gert við malbiksskemmdir sem síðan verður lagt yfir malbiksyfirlag.

Verkinu á að vera lokið þann 30. júlí næstkomandi.

Fyrri greinLögregla rannsakar fjárdrátt gjaldkera BFÁ
Næsta greinÆtla að koma með Hljóðnemann niður Kambana