Malbik á Bröttuhlíð og Þverhlíð á næsta ári

Í fyrri umræðu um fjárhagsáætlun Hveragerðisbæjar fyrir árið 2014, á síðasta fundi bæjarstjórnar, kom fram að rík áhersla verði lögð á endurbætur eigna í bænum á næsta ári.

Þegar Hveragerðisbær festi kaup á húsnæði Heimilisins við Birkimörk lá fyrir að utanhúss klæðning hússins væri ónýt. Tók kaupverð hússins mið af því og eru árið 2014 settir fjármunir til að klæða húsið uppá nýtt.

Gert er ráð fyrir umtalsverðu viðhaldi á leikskólanum Undralandi þar sem ráðast á í endurbætur bæði utan- og innanhúss. Lagfæra á gestasnyrtingar í anddyri íþróttahússins. Breytingar verða gerðar innanhúss í Grunnskólanum og viðhaldi sundlaugarhússins verður sinnt með auknum hætti svo fátt eitt sé talið.

Hvað fjárfestingar varðar er gert ráð fyrir kaupum á húsnæði fyrir frístundaskóla.

Langþráð gatnagerð verður framkvæmd þegar Brattahlíð og Þverhlíð verða lagðar bundnu slitlagi. Með því átaki sér fyrir endann á því verkefni að allar götur bæjarins verði lagðar bundnu slitlagi.

Gert er ráð fyrir úrbótum á göngustígakerfi bæjarins og horft sérstaklega til Drullusunds, sem er afgirt gönguleið um hverasvæðið í miðbænum, og göngustíga vestarlega í bænum.

Fyrri greinHáttbundin ljóðabók á toppnum
Næsta greinLeikskólinn verður byggður upp í Þingborg