Málar og safnar fyrir SOS barnaþorpin

Erna Kristín Stefánsdóttir frá Selfossi málar og selur myndir um þessar mundir þar sem hluti af ágóðanum rennur til SOS barnaþorpanna.

„Ég hef verið að mála stencil-myndir síðustu tvö ár til þess að borga upp skólagjöld og málningu og hafa þær verið rosalega vinsælar. Fólk er til dæmis að kaupa myndirnar til þess að gefa sem gjafir og þar sem þær eru að seljast svona vel datt mér í hug að halda söfnun fyrir SOS,“ segir Erna Kristín sem sækir námskeið hjá Myndlistarskóla Reykjavíkur og hefur einnig sótt námskeið í olíumálun hjá Þuríði Sigurðardóttur.

Erna Kristín, sem er 21 árs, byrjaði markvisst að mála myndir fyrir tveimur árum og málar hún undir nafninu Stín ART.

„Ég er að selja mest af myndum í stærðinni 60×80 sm. Þær kosta um 15.000 kr. og renna 5.000 kr. af hverri mynd til SOS barnaþorpanna. Í fyrra rakaði ég af mér allt hárið til styrktar ABC samtökunum og safnaði 646.000 kr. sem fór í það að byggja skóla fyrir krakkana í Kenya og núna hef ég ákveðið að styrkja SOS barnaþorpin,“ segir Erna Kristín sem stefnir á frekara myndlistarnám í Listaháskóla Íslands. Erna Kristín gerir alls konar stencil-myndir, þó að stencil-myndir af frægu fólki hafa verið hvað vinsælastar.

Erna Kristín segir að söfnunin muni standa yfir eins lengi og þarf að vera. „Þegar upphæðin er orðin almennileg þá skila ég af mér peningnum og held áfram að mála og einbeita mér að skólanum. Ég verð dugleg að láta vita á viðburðinum á Facebook hvernig gengur að safna,“ segir Erna Kristín að lokum.

Viðburðurinn á Facebook má finna hér. Facebook-síða Stín ART má svo finna hér.

Fyrri greinNýtt rör sparar milljónir
Næsta greinGuðjón lætur af störfum