Málþroski barna eflist markvisst í gegnum leik

Í síðustu viku kom út bókin „Sól, spjallað og leikið“. Bókin kom fyrst út í Danmörku en hún er unnin af þarlendum tal- og heyrnarfræðingum.

Bókina þýddu þær Hólmfríður Árnadóttir, talmeinafræðingur í Árborg en hún er búsett á Sólheimum, Hrafnhildur Karlsdóttir teymisstjóri og kennsluráðgjafi í skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings en hún er búsett á Selfossi og Margrét Tryggvadóttir sem starfað hefur sem sérkennari á Hvolsvelli.

Vorið 2015 fengu Hólmfríður, Hrafnhildur og Margrét styrk frá Barnavinafélaginu Sumargjöf sem gerði þeim kleift að semja við danskt útgáfufélag um útgáfu bókarinnar.

Bókin er ætluð börnum á aldrinum tveggja til níu ára en bókina geta leikskólakennarar og foreldrar notað til að þjálfa ýmsa þætti málþroskans. Í bókinni eru 127 leikir og þrautir og hún er kaflaskipt sem gerir hana aðgengilega fyrir kennara sem geta flett upp á þeim köflum sem þeir vilja vinna með og fundið þar heppilega leiki sem hægt er að leika með börnunum.

Kennarar kölluðu eftir leikjum
Þeir þættir málþroskans sem bókinni er ætlað að þjálfa eru orðaforði, setningamyndun, málhljóð, málskilningur og tjáskipti. Hrafnhildur segir að þær stöllur þekki það úr sínum störfum að það hafi vantað tilfinnanlega efni til eflingar málþroska barna í gegnum leik.

„Leikur þarf alltaf að vera kennsluaðferðin og það er ákjósanlegast að efla málþroskann í gegnum leik. Við kennum meðal annars á réttindanámskeiðum í TRAS málþroskaskráningu, en fjölmörg námskeið hafa verið haldin um land allt til að kenna kennurum á TRAS-listann. Á þeim námskeiðum hafa kennarar kallað mjög eftir hugmyndum að leikjum til að vinna með í kjölfarið, til eflingar á málþroska barna. Þegar okkur barst SOL bókin í hendurnar fannst okkur við hafa himinn höndum tekið og lögðumst strax í að þýða hana.“

Læra ekki tungumálið af sjálfu sér
Hrafnhildur segir að bókin henti vel þegar unnið er með börnum sem alast upp við fleiri en eitt tungumál. „Nýjar rannsóknir sýna að leikskólakennarar þurfa að leggja áherslu á vinnu með börnum af erlendum uppruna hvað varðar málörvun og íslenskukennslu. Tvítyngd börn læra ekki öll málið „af sjálfu sér“ bara af því að vera í leikskóla heldur þarf að kenna mörgum þeirra tungumálið og leiki með tungumálið markvisst. Til þess nýtist SOL bókin ákaflega vel,“ segir Hrafnhildur að lokum.

Fyrri greinGengið frá Strandarkirkju að Skálholti í sumar
Næsta greinRagnheiður, Haukur og Ásdís hlutu peningastyrki