Málþingið „Máttur víðernanna“ á sumardaginn fyrsta

Í tilefni vorhátíðar Kötlu jarðvangs bjóða Eldvötn – samtök um náttúruvernd í Skaftárhreppi til málþings á sumardaginn fyrsta, 19. apríl, kl. 13:00 til 16:30 í félagsheimilinu Kirkjuhvoli á Kirkjubæjarklaustri.

Yfirskriftin er „Máttur víðernanna“, en ætlunin að fjalla um þau frá ýmsum hliðum; skoða m.a. hvaða ávinning samfélagið getur haft af nábýlinu við þau – og hvaða sess þau hafa m.t.t. skipulagsmála.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, mun flytja erindi á málþinginu og kynna hugmynd um miðhálendisþjóðgarð.

Trausti Fannar Valsson, lögfræðingur, mun fjalla um landnýtingu og skipulagsvald og Snorri Baldursson, líffræðingur og rithöfundur, mun fjalla um tilnefningu Vatnajökulsþjóðgarðs á heimsminjaskrá Unesco.

Undir liðnum Gildi óraskaðra víðerna fyrir atvinnustarfsemi tala Guðmundur Fannar Markússon og Rannveig Ólafsdóttir hjá Icelandic Bike Farm, Mörtungu á Síðu, Hadda Björk Gísladóttir og Haukur Snorrason hjá Iceland photo tours, Hrífunesi í Skaftártungu og Heiða Guðný Ásgeirsdóttir hjá Vaga, gönguferðir, Ljótarstöðum í Skaftártungu.

Hörður Bjarni Harðarson, jarðfræðingur hjá Kötlu jarðvangi, mun fjalla um möguleika jarðfræðitengrar ferðaþjónustu og Stefanía Ragnarsdóttir, landvörður og hönnuður, flytur hugleiðingu um víðerni.