Magnús vill 3. sætið

Magnús B. Jóhannesson, rekstrarhagfræðingur í Kaliforníu, gefur kost á sér í 3. sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi fyrir komandi Alþingiskosningar.

Magnús lauk meistaranámi í rekstrarhagfræði og stjórnun frá Álaborgarháskóla árið 2002 og hefur starfað sem stjórnandi í atvinnulífinu í um 20 ár. Undanfarin fjögur ár hefur hann starfað sem framkvæmdastjóri hjá America Renewables í Kaliforníu, við þróun umhverfisvænnar orku.

„Ástæða þess að ég býð fram krafta mína nú er að ég hef trú á að hægt sé að gera Ísland að samfélagi sem öfund er af. Tækifærin hafa verið illa nýtt undanfarin ár sem lýsir sér meðal annars í fjölda brottfluttra, tæplega 35 þúsund frá 2008. Tími er til kominn að breyta stefnunni þannig að almenningi sé gefið tækifæri á að skapa sér og sínum nánustu bjarta framtíð í gróskumiklu og heiðarlegu umhverfi, í landi tækifæranna,“ segir Magnús í fréttatilkynningu sem hann sendi frá sér í dag.

Í gegnum tíðina hefur Magnús tekið virkan þátt í flokksstarfi Sjálfstæðisflokksins m.a. sem kosningastjóri tveggja bæjastjórnakosninga og Alþingiskosninga. Jafnframt hefur hann gegnt ýmsum trúnaðarstöðum innan flokksins s.s. formaður Sjálfstæðisfélags Keflavíkur, varaformaður stjórnar fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Keflavík, varaformaður og gjaldkeri Félags ungra sjálfstæðismanna í Keflavík og gjaldkeri Félags ungra sjálfstæðismanna á Akureyri.

Nánar má fræðast um framboð Magnúsar á bloggsíðu hans.

Fyrri greinTekur þetta á næsta stig
Næsta greinÍþróttagólf lagt í Hamarshöllinni