Magnús Hlynur Sunnlendingur ársins 2021

Magnús Hlynur Hreiðarsson, Sunnlendingur ársins 2021. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Lesendur sunnlenska.is kusu Magnús Hlyn Hreiðarsson, fréttamann á Selfossi, Sunnlending ársins 2021. Kosningin fór fram í janúar síðastliðnum en vegna covid-ástandsins í þjóðfélaginu í vetur og vor tókst ekki að heiðra Magnús fyrr en nú, á sumardaginn fyrsta.

„Er þetta ekki svona sumardagsins fyrsta apríl gabb?,“ spurði Magnús hlæjandi þegar hann fékk fréttirnar í hádeginu. „Ég ætlaði ekki að trúa þessu, þetta er bara æðislegt og ég er ofboðslega stoltur og ánægður og þakka kærlega fyrir mig. Þetta er mikill heiður.“

Þrátt fyrir rigningarsumar sunnanlands og kórónuveirufaraldur var Magnús fundvís á góðar fréttir á síðasta ári.

„Ég geri svo mikið af fréttum og þær voru margar eftirminnilegar. Það var margt að gerast, mikil uppbygging á Suðurlandi og Árborg. Svo auðvitað öll lömbin og folöldin og kálfarnir sem voru að fæðast. Ég hef gaman af dýrafréttum, ég er búfræðingur frá Hvanneyri og ætlaði alltaf að verða bóndi og ætlaði ekkert að ná í hjúkku á Selfossi, það stóð aldrei til, ég ætlaði að ná mér í konu með kvóta, en það er allt í lagi, ég er mjög hamingjusamur í dag,“ segir Magnús og brosir.

Alvarleg veikindi breyttu viðhorfinu til lífsins
Magnús fékk góða kosningu í kjörinu og í rökstuðningi margra sagði að jákvæðni hans væri mikilvæg á því erfiða ári sem 2021 reyndist mörgum. Magnús segir mikilvægt að flagga því jákvæða.

„Það er rosalega mikilvægt í öllu þessu fári sem er á Íslandi og úti í heimi, að reyna að vera eins jákvæður og hægt er. Auðvitað á ég mínar stundir þar sem ég er ekkert endilega mjög jákvæður en ég reyni það samt. Sérstaklega eftir mikil veikindi 2015, hjartaaðgerð sem ég fór í, þá horfir maður á lífið upp á nýtt. Það er svo dásamlegt að lifa og að komast út úr þessum veikindum breytti sjónarhorninu hjá mér alveg svakalega. Ég var alveg að deyja, gúlpurinn var að fara að springa en það náðist að bjarga því á síðustu stundu. Ég er svo þakklátur fyrir það og hef allt annað viðhorf til lífsins eftir þetta. Þess vegna segi ég að við eigum alltaf að flagga því jákvæða sem er að gerast.“

Fær frjálsar hendur í fréttaleitinni
Fréttamaðurinn jákvæði er duglegur að vinna fréttir og skilar af sér miklu efni í viku hverri. Einhverjir kjósendur höfðu á orði að þegar ástandið væri sem þyngst í þjóðfélaginu væri gott að fá heilan fréttatíma, bara með fréttum frá Magnúsi.

„Það væri ekkert mál,“ segir hann og hlær. „Ég er líka svo þakklátur fréttastofu Stöðvar 2, Bylgjunnar og Vísis að ég hef alveg frjálsar hendur við það hvaða fréttir ég er að gera. Ég fer bara þangað sem ég vil og geri mínar fréttir. Núna í sumar er ég til dæmis að fara í hringferð á vegum fréttastofunnar og heimsæki eiginlega öll sveitarfélög á Íslandi og sæki fullt, fullt af fréttum. Þannig að fólk fær örugglega nóg af mér eftir sumarið. Ég er í gríðarlega góðu sambandi við marga hérna á svæðinu og er að fá fullt af skemmtilegum ábendingum um fréttir og ég er svo þakklátur fyrir það. Fólk er að láta mig vita af alls konar vitleysu og ég veð í það og þakka fyrir traustið sem fólk sýnir mér með að leyfa mér að gera þessar fréttir,“ sagði Magnús að lokum.

Góð þátttaka í kosningunni
Eins og venjulega var góð þátttaka í kosningunni um Sunnlending ársins. Magnús háði harða keppni við Ómar Inga Magnússon, landsliðsmann í handbolta og íþróttamann ársins, sem varð annar í kjörinu og í þriðja sæti var Guðríður Aadnegard, námsráðgjafi og umsjónarkennari í Hveragerði, fyrir baráttu sína í eineltismálum.

Fyrri greinKarlakór Selfoss hefur upp raust sína
Næsta greinÆgir í 32-liða úrslitin – Uppsveitir úr leik