Magni og Móði á Fimmvörðuhálsi

Nöfnin Magni og Móði hafa verið valin fyrir nýju gígana tvo á Fimmvörðuhálsi. Þá á nýja hraunið að heita Goðahraun.

Örnefnanefnd lagði fram tillögu þessa efnis fyrir mennta- og menningarmálaráðherra, sem samþykkti þau fyrir skemmstu.

Örnefnin vísa til goðafræðinnar. Magni og Móði voru synir Þórs, þrumuguðsins úr ásatrú. Það er vel við hæfi, enda er Þórsmörk skammt frá gígunum. Goðahraun var nefnt eftir Goðalandi, en hraunið rennur þangað. Samkvæmt skýrslu nefndarinnar var hugmyndafræðin á bakvið nafngiftirnar sú, að þau myndu ríma við örnefnin sem voru á svæðinu fyrir.

Nefndin tók fyrir um 150 tillögur að heitum, sem bárust hvaðanæva úr þjóðfélaginu. Þar á meðal úr nafnaleik sem var háður á Rás 2.

Á mbl.is kemur fram að Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, sé ánægð með heitin. Sömu sögu er að segja af sveitastjórnarmönnum á svæðinu, en heitin voru einnig borin undir þá.

Fyrri greinStóra kaffimálið afgreitt
Næsta greinAri forseti bæjarstjórnar