„Magnaðasta flotlaug landsins“

Laugardaginn 21. október verður haldið Sveita-Samflot í Sundlauginni Laugaskarði í Hveragerði.

Þetta er í fimmta sinn sem Sveita-Samflot er haldið í Sundlauginni Laugaskarði. Jafnframt er þetta síðasta Sveita-Samflot ársins.

„Þótt laugin í Laugaskarði sé í hópi elstu lauga landsins er hún ennþá með þeim allra bestu og glæsilegustu. Það er svo einkar skemmtilegt að kynnast henni upp á nýtt sem líklega mögnuðustu flotlaug landsins,“ segir Guðrún Kristjánsdóttir hjá Systrasamlaginu í samtali við sunnlenska.is.

Sveita-Samflotið er samstarfsverkefni Systrasamlagsins, Flothettunnar og Hveragerðisbæjar. „Sveita-Samflotin í Sundlauginni Laugaskarði hafa þótt lukkast afar vel. Þau hafa þótt einstaklega falleg, gefandi og notaleg,“ segir Guðrún.

Heiða Björk Sturludóttir, jógakennari, sér um að leiða fólk í Sveita-Samflotinu með öndunaræfingum, jógaæfingum og visku. Eftir samflotið er boðið upp á nærandi drykk, skot og súrdeigssamloku.


Ljósmynd/Guðrún Kristjánsdóttir

Engin klórlykt sem truflar
„Á yngri árum kom ég oft við í Laugaskraði á leið úr eða í bæinn. Það var fátt skemmtilegra. Síðan liðu nokkur ár þar til ég kynntist henni upp á nýtt með annað sjónarhorn í huga. Þessum frábæru pottum, gufunni, umhverfinu og hvað hún er stór en heldur samt vel utan um fólk. Þetta eru einmitt bestu kostir hennar sem flotlaugar.“

„Það sem er ekki síst mikilvægt er að hún er gegnumrennslislaug, hituð upp með jarðgufu, sem tryggir eðlilegt sýrustig og hreint vatn. Þannig þarf maður ekki að láta klórlykt trufla næm skilningarvitin þegar maður svífur á vit innri ævintýra í flotinu. En síðast en ekki síst skiptir miklu að geta hitað laugina hárnákvæmt upp í það hitastig sem hentar fullkomlega fyrir Sveita-Samflot,“ segir Guðrún.

„Það væri gaman að sjá sem flesta Sunnlendinga í Sveita-Samflotinu sem myndu þá ná að kynnast lauginni sem töfrandi flotlaug líka. Þetta verður semsé síðasta Sveita-Samflot þess árs en við munum aftur fljóta í Laugaskarði með hækkandi sól. Það er engin vafi á því. Takk fyrir okkur Hvergerði,“ segir Guðrún að lokum.

Allar nánari upplýsingr um Sveita-Samflotið má finna á Facebook viðburði Samflotsins.

Fyrri greinJóna Sólveig leiðir lista Viðreisnar
Næsta greinFjórir leikmenn á förum frá Selfossi