Maggnús hreppti Pétursbikarinn

Pétursbikarinn 2015, árleg lendingarkeppni Flugklúbbs Selfoss var haldin í gær laugardaginn 14.nóvember. Þetta er í 30. skiptið sem keppnin er haldin að einu ári undanskildu.

Sigurvegarinn fær til vörslu farandbikar sem kenndur er við Pétur Sigvaldason, en Pétur mætti sem gestur á stofnfund Flugklúbbs Selfoss 16.maí 1974 og lagði til í kjölfarið fyrsta fjárframlagið til flugvallargerðar á Selfossi. Pétur lést í flugslysi 3 vikum síðar, aðeins 25 ára gamall ásamt þremur öðrum ungmennum.

Keppnin að þessu sinni var hörð og skemmtileg, en sex flugvélar tóku þátt. Keppt var í fjórum lendingum með mismunandi aðferðum sem reyna talsvert á færni flugmanns. Veðrið lék við keppendur og áhorfendur, sól, logn og hiti rétt yfir frostmarki.

Sigurvegarinn að þessu sinni var Maggnús Víkingur Grímsson á TF-REF en hann hlaut 126 refsistig. Annar varð Þórir Tryggvason á TF-172 og þriðji Birgir Steinar Birgisson á TF-KAJ.

Kristbjörn Ólafsson sá um að dæma að venju og Stefán Jóhannsson stýrði umferð um völlinn.

Flugklúbbur Selfoss þakkar þáttakendum og gestum fyrir skemmtilegan dag.

Myndir Alex Ægissonar frá keppninni má sjá á Facebooksíðu flugklúbbsins

Fyrri greinMenningarsalurinn fékk flygil að gjöf
Næsta greinSmyglarar gómaðir við Vík í Mýrdal