Magdalena og Kristín sæmdar pólskri heiðursorðu

Gerard Pokruszynski sendiherra Póllands ásamt konu sinni, Margherita Bacigalupo-Pokruszynska, Magdalenu Przewlocka kennari og Kristínu Sigfúsdóttur skólastjóra Grunnskólans á Hellu. Ljósmynd/Rangárþing ytra

Á skólasetningu Grunnskólans á Hellu í síðustu viku sæmdi sendiherra Póllands, Gerard Pokruszynski, þær Magdalenu Przewlocka kennara og Kristínu Sigfúsdóttur skólastjóra heiðursorðu ríkismenntamálanefndar Póllands.

Orðurnar voru veittar í tilefni af því að fimmtán ár eru síðan móðurmálskennsla pólskra nemenda hófst í grunnskólanum.

Sigurgeir Guðmundsson, þáverandi skólastjóri, sýndi mikinn áhuga á að efla móðurmálskennslu í skólanum. Hann „veiddi“ Magdalenu til starfa við skólann eins og hún orðar það sjálf, m.a. til að sinna þessari kennslu. Magdalena hefur haldið utan um kennsluna æ síðan og gert það afburða vel, ásamt því að annast samskipti við pólska nemendur í skólanum og fjölskyldur þeirra. Margir þessara nemenda hafa tekið stöðupróf í pólsku í 9. eða 10. bekk og staðið sig einstaklega vel.

Í Grunnskólanum á Hellu er mikil fjölmenning og eru börn af erlendum uppruna nú rúmlega 30% af nemendum skólans, þar af um 15% frá Póllandi eða 22 nemendur.

Fyrri greinÓli Guðmunds með fjóra titla og tvö Íslandsmet
Næsta greinÞyrlan leitaði á Eyrarbakka