Maðurinn fannst heill á húfi

Frá leitinni í nótt. Ljósmynd/Landsbjörg

Á þriðja hundrað björgunarveitarmenn tóku þátt í leit að ferðamanni að Fjallabaki í gærkvöld, sem lauk rétt fyrir miðnætti. Sveitirnar voru kallaðar út klukkan fimm í gær eftir að boð barst frá neyðarsendi norðaustur af Mýrdalsjökli.

Á hálendinu er mikill snjór og víða krapi og því aðstæður erfiðar. Kallaðar voru út sveitir frá Suðurlandi, Suðvesturlandi og Vesturlandi með snjóbíla, breytta jeppa, vélsleða og leitarhunda. Í neyðarboðunum barst staðsetning sem var ekki endilega nákvæm og því var leitarsvæðið í upphafi nokkuð stórt. Sótt var að svæðinu úr nokkrum áttum og voru fyrstu hópar komnir á vettvang um klukkan átta og leit hófst. Mjög fljótt fjölgaði leitarmönnum og voru hátt í tvö hundruð menn komnir á vettvang þegar maðurinn fannst klukkan 23:40, um 4,5 kílómetra frá upphaflegri staðsetningu.

Hann var heill á húfi en kaldur og blautur, björgunarsveitarmenn komu honum í hlý og þurr föt og fluttu hann á vélsleða til móts við þyrlu Landhelgisgæslunnar sem flutti manninn til aðhlynningar í Reykjavík.

Voru allir björgunarmenn komnir til síns heima klukkan fimm í nótt.

Fyrri greinHrunamenn unnu í framlengingu – Hamar tapaði
Næsta greinÉg óska eftir þínum stuðningi – Bragi Bjarna í 1.sæti