Maður vopnaður boga og örvum handtekinn á Selfossi

Lögreglustöðin á Selfossi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Lögreglumenn á Selfoss handtóku mann í nótt við Björgunarmiðstöðina á Selfossi, vopnaðan boga og örvum.

Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn, staðfesti þetta í samtali við sunnlenska.is. Lögreglan fékk tilkynningu laust eftir klukkan fjögur í nótt að maður vopnaður boga og örvum væri á gangi við Tryggvatorg á Selfossi. Lögreglumenn fóru á vettvang og fundu manninn fljótlega.

„Það var fylgst með ferðum hans nokkra stund án hans vitneskju en hann var síðan handtekinn á Árvegi án mótþróa. Maðurinn lagði niður vopn sín strax og skorað var á hann að gera slíkt,“ segir Oddur.

„Maðurinn var færður í fangahús á Selfossi og bíður þess nú að verða yfirheyrður um ferðir hans og fyrirætlanir í nótt. Sú yfirheyrsla fer fram strax og ástand mannsins leyfir,“ sagði Oddur ennfremur en lögreglan mun ekki gefa frekari upplýsingar um málið að sinni.

Fyrri greinEngin skotsár á hrossunum
Næsta greinTvær líkamsárásir tilkynntar til lögreglu