Má í Háholti reistur minnisvarði

Á dögunum var afhjúpaður í svonefndri Gljúfurleit á Gnúpverjaafrétti minnisvarði um Má heitinn Haraldsson bónda, oddvita og fjallkóng Gnúpverja.

Már lét mjög að sér kveða sem baráttumaður fyrir verndun Þjórsárvera, þegar uppi voru, rétt eftir aldamót, áform um gerð svonefnds Norðlingaöldulóns. Varðinn var reistur að frumkvæði liðsmanna Ferðafélags Íslands, sem hafa látið baráttuna um vernd Þjórsárvera til sín taka.

Með eftirlegukindur
Athöfn var í Gljúfurleit var þegar eftirleitarmenn voru að koma til byggða af afréttinum með eftirlegukindur. Eftir athöfn var kaffiboð í gangnamannaskálanum í Gljúfurleit, þar sem þjóðlegar veitingar höfðu verið lagðar á borð.

Forseti Ferðafélags Íslands er Ólafur Örn Haraldsson, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum og fyrrverandi alþingismaður. Á þingmannsferli sínum lét hann sig Þjórsárveramál varða. Áttu þeir Már Haraldsson margvísleg samstarf í því máli á árunum 2001 til 2003. Már var undir það síðasta orðinn veikur og lést úr krabbameini vorið 2004, aðeins fimmtugur að aldri.

Óbugandi vilji
„Eitt helsta kjörsvið Ferðafélags Íslands er að hvetja fólk til ferðalaga um óbyggðir landsins og njóta þar unaðsstunda í ósnortnum víðernum. Þjórsárver eru slíkur staður og hefur félagið staðið fyrir ferðum þangað í áratugi,“ sagði Ólafur Örn við afhjúpun minnisvarðans.

Hann minntist samstarfsins við Má í Háholti með virðingu og hlýhug og sagði hann hafa verið fulltrúa margra góðra gilda sem þjóðin þurfi á að halda, það er skynsemi, trausti og öruggri forystu í sínu héraði.

„Framsetning hans og fas einkenndist af hófsemi og kurteisi en engum duldist þekking hans á viðfangsefninu og óbugandi vilji að verja Þjórsárver fyrir ágangi,“ sagði Ólafur Örn sem gat þess að á næsta ári yrði í Gljúfurleit komið upp töflu þar sem svæðinu yrði lýst sem og fjallferðum Gnúpverja um þessar slóðir.

Fyrri greinVel heppnuð góðgerðarvika
Næsta greinFékk þriggja mánaða dóm fyrir líkamsárás