Maðurinn ófundinn

Vel á annað hundrað manns leituðu að týnda ferðamanninum í nágrenni Fimmvörðuháls í nótt. Hann er ófundinn.

Maðurinn hringdi í Neyðarlínuna á ellefta tímanum í gærkvöldi en ekkert hefur spurst til hans síðan. Ekki er vitað um þjóðerni mannsins.

Björgunarsveitir hafa leitað mannsins í alla nótt en er nú verið að skipta um mannskap en sveitir allt frá Suðurnesjum austur í Álftaver taka þátt í leitinni. Hundar hafa verið notaðir við leitina og verið er að fjölga snjóbílum á svæðinu.

Þá hefur þyrla Landhelgisgæslunnar tekið þátt í leitinni í nótt og í morgun samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörgu.

Þoka skerðir skyggni á Fimmvörðuhálsi og vindur þar er um 10-15 m/sek. Allt kapp verður lagt á leitina nú í birtingu en spáð er slæmu veðri á svæðinu upp úr hádegi.

Fyrri greinJarðgöng undir Reynisfjall á skipulagi
Næsta greinKokkarnir taka við Krúsinni