Maðurinn fundinn á lífi

Ökumaður bifreiðarinnar sem hafnaði úti í Ölfusá í gærkvöldi fannst í morgun á lífi skammt frá Selfossflugvelli. Hann var fluttur á sjúkrahús, kaldur og hrakinn.

Víðtæk leit var gerð að manninum og bílnum á og við Ölfusá í gærkvöldi en hátt í hundrað leitarmenn leituðu til klukkan þrjú í nótt. Leit hófst aftur í birtingu í morgun og fannst maðurinn klukkan 10:20.

Björgunarsveitarmenn leituðu í gærkvöldi á svæðinu frá Selfosskirkju og niður að Selfossflugvelli.

Maðurinn var fluttur á sjúkrahúsið á Selfossi og er hlúð að honum þar. Hann fannst um það bil tveimur kílómetrum frá þeim stað sem bifreiðin fór út í ána.

Í ellefufréttum Bylgjunnar kom fram að maðurinn er 29 ára gamall.
UPPFÆRT KL. 11:13:
Í frétt RÚV kemur fram að leitinni verður haldið áfram þar sem ekki er talið öruggt að hann hafi verið einn á ferð. Lögreglan vill ekki tjá sig nánar um málavexti, en rannsakar nú málið í heild sinn og fer yfir alla þætti þess.
UPPFÆRT KL. 12:15: Leit hefur verið hætt og maðurinn hefur verið fluttur á Landspítalann.
Fyrri greinJáverk bauð lægst í Sunnulæk
Næsta greinÓskar endurkjörinn formaður