Maðurinn lagðist til sunds í Reynisfjöru

Maðurinn sem var hætt kominn í sjónum í Reynisfjöru í Mýrdal í dag hafði lagst til sunds í sjónum þegar öldusogið greip hann. Ekkert GSM eða talstöðvarsamband er í fjörunni.

Neyðarlínan fékk tilkynningu um manninn, sem er erlendur ferðamaður, í sjónum rétt fyrir klukkan 18 í dag. Hann hafði verið þarna á ferð ásamt konu sinni og þremur vinum á eigin vegum á bílaleigubíl. Hafði maðurinn lagst til sunds í sjónum nær Dyrhóley en öldusogið hafði gripið hann og barðist hann í brimrótinu í rúman hálftíma áður en honum tókst að komast í land í fjörunni undir Reynisfjalli.

Björgunarsveitarmenn frá Víkverja í Vík komu taug fyrir ofan manninn og seig einn björgunarsveitarmaðurinn niður til hans. Hann beið síðan með manninum þar til þyrla frá Vesturflugi, sem stödd var í nágrenninu, náði að komast að þeim og flytja þá á öruggt svæði í fjörunni.

Þar tók við manninum hjúkrunarfólk og læknir og var maðurinn fluttur með sjúkrabifreið á Heilsugæslustöðina í Vík. Talið er að maðurinn nái sér að fullu eftir atvikið.

Þyrla Landhelgisgæslunnar kom á staðinn til að tryggja að björgunarsveitarmenn sem fóru á bát frá Vík kæmust heilir í land og ef flytja þyrfti manninn til Reykjavíkur sem ekki reyndist þörf á. Björgunarbáturinn sem fór frá Vík hafði ekki tekist að komast að manninum vegna brims.

Þessi glæfraför mannsins endaði því vel en hefði getað farið illa því ekki leit vel út með manninn á tímabili.

Þetta er ekki fyrsta slysið sem verður í Reynisfjöru en samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Hvolsvelli tafði það björgun að hvorki er talstöðvarsamband eða GSM samband í fjörunni.

Fyrri greinTýnd í Þórsmörk – fannst í Reykjavík
Næsta grein100 ár frá fyrstu bílferðinni austur fyrir fjall