Mælt með að sjóða drykkjarvatn úr Helluveitu

Grunur er um að yfirborðsvatn hafi komist í vatnsból hjá Vatnsveitu Rangárþings ytra og Ásahrepps – Helluveitu. Ekki er talið að mengunin valdi heilsutjóni hjá heilbrigðum einstaklingum

Í tilkynningu frá Rangárþingi ytra segir að til þess að tryggja heilnæmi vatnsins sé mælt með að sjóða drykkjarvatn.

Þegar hefur verið gripið til aðgerða til að komast að ástæðum vandans í því skyni að koma í veg fyrir að þetta ástand endurtaki sig. Heilbrigðiseftirlits Suðurlands mun taka sýni af neysluvatni vatnsveitunnar í dag og verða notendur upplýstir um niðurstöður um leið og þær berast.

Samkvæmt neysluvatnsreglugerð ber að tilkynna slíkt til notenda og jafnframt meta líkur hvort heilsu manna stafi hætta af. Ekki er talið að mengunin valdi heilsutjóni hjá heilbrigðum einstaklingum, en til að tryggja heilnæmi vatnsins er mælt með að sjóða drykkjarvatn.

Fyrri sýnatökur á vegum Heilbrigðiseftirlits Suðurlands hafa ávallt sýnt fram á mjög góð gæði neysluvatns vatnsveitunnar, og munu starfsmenn vatnsveitunnar, í samvinnu við Heilbrigðiseftirlit Suðurlands, vinna að endurheimtingu neysluvatnsgæða og sjá til þess að notendur verði upplýstir um gæði vatnsins jafnóðum.

Fyrri greinMYNDBAND: Hársbreidd frá árekstri á Eyrarbakkavegi
Næsta greinEkki hætta á flóði á meðan áin rennur undir stífluna