MæðraKompaníið vex og dafnar

MæðraKompaní er félagsskapur ungbarnamæðra sem hittast vikulega á Selfossi. Hópurinn hefur sprengt utan af sér Kaffi Líf og fengið inni í ungmennahúsinu, Pakkhúsinu.

MæðraKompaní hittist á mánudagsmorgnum kl. 10:30 í Pakkhúsinu og segir Andrea Björgvinsdóttir, stofnandi MæðraKompanís að sunnlenskar ungamæður hafi verið duglegar að mæta og taka þátt í því sem er í boði.

„Sveitarfélagið hefur lánað okkur ungmennahúsið, Pakkhúsið, og þar er frábær aðstaða fyrir okkur. Guðnabakarí styrkir okkur með brauði og við seljum kaffi og með því fyrir klink, til að safna fyrir kostnaði. Afgangurinn fer í að greiða fyrir fyrirlesara sem mæta og fræða okkur,” segir Andrea og bætir við að sl. mánudag hafi t.a.m. verið vel heppnað skyndihjálparnámskeið í Pakkhúsinu.

„Við viljum líka auglýsa eftir teppum, barnastólum og dóti sem fólk er kannski hætt að nota og vill leyfa okkur að nýta fyrir litlu ungana okkar. Svo hvetjum við allar ungamömmur til þess að mæta á mánudagsmorgnum og pabbarnir eru auðvitað velkomnir líka. Það er ýmislegt skemmtilegt framundan hjá okkur, t.d. ömmumorgnar og pabbakvöld og margt fleira,” segir Andrea að lokum.

Fyrri greinBikargleði í blómabænum
Næsta greinÚtgáfuhóf í Iðu