Mæðgin undir áhrifum – með fangið fullt af folaldalundum

Síðdegis á laugardag barst lögreglu tilkynning frá starfsmanni Bónus á Selfossi um að frá versluninni hafi farið karlmaður með fullt fang af folaldalundum sem hann hafi ekki greitt fyrir.

Starfsmaðurinn sá manninn fara inn í bifreið en í henni voru tvær konur og var önnur þeirra undir stýri. Konan ók af stað og lenti þá utan í kyrrstæðri bifreið.

Starfsmaður Bónus var þá kominn á staðinn og hindraði konuna í að komast í burtu. Hún kom þá út úr bifreiðinni og karlmaðurinn, sonur konunnar, settist undir stýri og ók á brott en móðirin varð eftir. Maðurinn kom þýfinu frá sér í runna skammt frá og snéri síðan við til að sækja móður sína.

Lögreglan fann stuttu síðar bifreiðina og fólkið og voru þau öll handtekin.

Í bifreiðinni fundust fíkniefni en maðurinn og móðir hans viðurkenndu bæði að hafa ekið bifreiðinni undir áhrifum fíkniefna auk þess að hafa stolið kjötinu úr Bónus.