Mæðgin tóku við verðlaunum

Við athöfn sl. laugardag fékk leikskólinn Kæribær umhverfisverðlaun Skaftárhrepps 2010 og Steinn Orri Erlendsson var valinn íþróttamaður hreppsins árið 2010.

Á Leikskólanum Kærabæ hefur umhverfismálum um árabil verið sinnt í verki. Á liðnu ári endurnýjaði leikskólinn rétt sinn til að flagga grænfánanum, sem er er alþjóðlegt verkefni til að auka umhverfismennt og styrkja umhverfisstefnu í skólum.

Steinn Orri Erlendsson er einnig vel að sínum verðlaunum kominn, þar sem hann náði næst besta árangri á landinu í sínum aldursflokki árið 2010 í hástökki og kúluvarpi innanhúss.

Svo skemmtilega vildi til að leikskólastjóri Kærabæjar, Þórunn Júlíusdóttir, sem tók við verðlaunum leikskólans er móðir Steins Orra.